Svo mælti OssomTossom

Ég meina það sem ég segi þegar ég segi það. Hvað með það þótt ég hafi skipt um skoðun hálfmínútu síðar?

Myndin mín
Nafn:
Staðsetning: Reykjavík, Iceland

9.8.07

OssomTossom - fæddur undir heillastjörnu

Ákvað að bregða mér í ferðalag, alla leið til Ikea. Ég tók strætó suður til Hafnarfjarðar, sat alla leið frá Lækjartorgi til endastöðvar leiðar 1. Í alvöru talað, það er allt of mikið á mann lagt að sitja mikið lengur í strætisvagni, svo ég ákvað að ganga bara upp í Ikea. Bara smáspölur, hugsaði ég með mér, en ég hafði gleymt að taka það með í reikninginn að höfuðborgarsvæðið er ekki hannað með þá í huga sem kjósa frekar að ganga en að keyra.

Ég þurfti því að taka á mig smá krók (ég kann svosem ekki að lýsa leiðinni, en ég gekk m.a. fram hjá tjörn þarna í Hafnarfirði, og svo auðvitað framhjá Kaplakrika) en það kom ekki að sök því ég fann þennan líka fjarska notalega bar: Bar Polonia, sem auglýsti pólskan bjór og pólskan mat, bæði á íslensku og pólsku. Eldhúsið var því miður lokað, og ég vissi ekki að Viking væri pólskur bjór, en engu að síður var ágætt að nema staðar þar um stund, fá sér bjórglas og fletta blöðum.

Á leiðinni komst ég líka í berjamó: Glás af bláberjum og krækiberjum sem ég gat nartað í á leiðinni. Fjarska hressandi, og varla neitt útblástursbragð af þeim. Þessu hefði ökuþór misst af.

Nú, svo til að kóróna allt saman: Eftir að hafa keypt það sem ég kom til að kaupa (alls kyns smávörur bara, og einn lítinn skáp sem ég fæ kannske sendan hingað á eftir - forljótur, auðvitað, en vonandi notadrjúgur), hvern hitti ég annan en Mumma, bróður Emblu, sem stóð þarna og hámaði í sig pylsu á meðan börnin hans sleiktu ísa. Auðvitað bauð hann mér far og auðvitað þáði ég það, því á þessum tíma var komin hellirigning, og mér leist nú bara mátulega á að ganga alla leiðina niður á stoppistöð aftur til að ná strætó.

Svona reddast nú allt hjá manni, á einn eða annan veg.

1 Comments:

Anonymous Nafnlaus said...

Gúddtæms maður, þetta hefur bara verið skemmtilegasta útilega :)

-Frikki

10:59  

Skrifa ummæli

<< Home