Svo mælti OssomTossom

Ég meina það sem ég segi þegar ég segi það. Hvað með það þótt ég hafi skipt um skoðun hálfmínútu síðar?

Myndin mín
Nafn:
Staðsetning: Reykjavík, Iceland

16.8.07

Hvergitölvur

Síðustu næturvaktir hef ég verið svo heppinn að hafa haft virkilega góðar bækur með mér (ég hef fyrir löngu klárað þær bækur sem eru þess virði að lesa á deildinni, þ.e. Ljóshærða villidýrið, Þetta er dauðinn, senor Kane og Óþelló): Ethics eftir John L. Mackie og Bréf til Maríu eftir Einar Má Jónsson. Báðar eru þær stórskemmtilegar, en kannske þarf Mackie aðra umferð: Það má vel vera að stundum hafi ég verið of þreyttur eða illa sofinn til að ná að grípa það sem hann hafði að segja.

Hins vegar er Bréf til Maríu tiltölulega auðmelt áróðursrit gegn frjálshyggju og ýmsu öðru sem Einari þykir vera að þjóðfélagi nútímans. Hann ræðir að vísu aðallega um franskt samfélag og andlegt líf í Frakklandi (hvernig marxisminn var einu sinni tískubylgja þar, og hvort að frjálshyggjan sé tískubylgjan í dag - en eins og t.d. VefÞjóðviljinn bendir á, þá eru Frakkar e.t.v. ekki mesta frjálshyggjuþjóð veraldar), en það má samt vel vera, og kannske er það jafnvel líklegt, að margt sem hann segir eigi allt eins við um Ísland. Það er þó einn helsti kostur hans að hann kann að skrifa „kannske“ - það er ekkert i í því orði! Einn lítill bútur í þessu 350 blaðsíðna bréfi greip mig þó umfram alla aðra. Það var ekki nema ein opna þar sem hann byrjar að ræða um tölvur.

Útgangspunkturinn er að tölvur séu verkfæri, eða kannske heimilistæki. Ágætt, það er hægðarleikur að fallast á það. Tölvur eru nú fyrst og fremst hugsaðar til að létta manni lífið. En, eins og Einar bendir á, það eru þvottavélar líka. Og hvað, spyr hann, þætti okkur um þvottavélar sem að meðaltali entust ekki nema í tvö-þrjú ár að meðaltali áður en þær hættu að virka, með tiltölulega stuttu millibili væru framleiddar nýjar gerðir þvottavéla „með alls kyns stýringum og útbúnaði sem enginn hefði minnstu þröf fyrir en gerðu allar eldri gerðir þvottavéla úreltar“, og þar að auki væru reglulega framleidd föt úr nýjum efnum sem væri ekki hægt að þvo í eldri þvottavélum?

Tja. Hvað þætti manni nú um slíka þvottavél? Nú, eða ísskáp eða bíl...

Einar hefur auðvitað bara nokkrar blaðsíður handa tölvunum. Annað sem hann leggur dálitla áherslu á er gildi klassískar menntunar og hve mikilvægt það er að kunna fleiri en eitt tungumál (að því leyti fær maður á tilfinninguna að hann sé líka að skrifa handa Frökkum, sé miðað við hvað hann segir um þekkingu Frakka á tungumálum öðrum en frönsku - hvort sem er ensku eða þýsku eða spænsku). Að sjálfsögðu er hann líka gagnrýninn á hlutverk ensku sem eins konar alþjóðamáls, og nefnir m.a. fræðibækur á hans sérfræðisviði (sem er miðaldafræði) - jafnvel bækur sem skrifaðar eru á ensku um Frakkland vísa varla til neinna franskra greina eða bóka. Það er svosem erfitt að andmæla þessu; ef móðurmál heillar þjóðar er líka alþjóðamál menntamanna þá skekkir það leikinn talsvert. Þeir sem tala ensku að móðurmáli eru mun betur settir en þeir sem hafa lært ensku eftir að þeir hættu að drekka brjóstamjólk að staðaldri. Eins og hann lýsir enskukunnáttu Frakka (og eflaust á hún líka við tvo til þrjá Íslendinga líka), þá nálgast þeir ensku eins og eins konar „dulbúna frönsku“ - semsagt, hvert orð í frönsku á sér nákvæma hliðstæðu í frönsku, og öfugt.

Sem er að sjálfsögðu alls ekki tilfellið, ekki frekar en að hvert orð í íslensku eigi sér nákvæma hliðstæðu í ensku. Eða hvað - á „frekja“ sér kannske einhvern nábróður í ensku (fyrir utan freak, auðvitað)?

Hvað sem því líður, þá er ég alveg til að fallast á það með honum Einari Megasarbróður að því fleiri tungumál sem maður kann, því betri maður er maður. Það er svosem ekki bara hann sem heldur þessu fram - mér skilst að þetta sé til dæmis haft fyrir satt í Þýskalandi - þannig að ég þarf greinilega að fara að rifja upp þá litlu menntaskólaþýsku sem ég lærði fyrir átta-ellefu árum síðan. Í það minnsta er alveg satt að heimildaskrá er býsna fátækleg ef á henni eru aðeins (ísl)enskar bækur - sérstaklega ef ritgerðin eða bókin er um Frakka, Tyrkja eða Rússa.

En nóg af Einari. Ef einhver vill lesa þessa bók - hún er auðlesin og skrifuð á mun betri íslensku en líklegt er að rekast á á mbl.is eða visir.is - þá er sennilega best að fá hana bara lánaða hjá mér. Ég krefst einksis í endurgjald nema kannske nafn lánþega ritað á lítið plagg með lánþegablóði. Í alvöru, það er ekkert stórmál.

Í gær var ég hins vegar vakinn all-ruddalega af einhverjum póstsendli. Veit þetta fólk ekki að ég sef á daginn og vaki á nóttunni? Ég fyrirgef honum auðvitað því hann var að færa mér langþráða sendingu frá Amazon - nokkrar bækur og dvd-diska. Bækurnar hef ég rétt svo gluggað í - ritgerðarsöfn frá Bernard Williams, og bækur í seríu sem heitir Very Short Introductions. Ein þeirra er Very Short Introduction to Mathematics og ég hlakka mjög til að læra loksins einhverja stærðfræði, þar sem ég hef gleymt nær öllu sem ég lærði af menntaskólastærðfræðinni nema Pýþagórasarreglunni, og ég kann ekki einu sinni að sanna hana ennþá. Kannske skil ég þessar tölur allar betur eftir lesturinn?

Af dvd fékk ég hins vegar Sjö samúræa (sem ég hef bara séð á vhs-spólu, og hef því ekki getað séð í talsverðan tíma) og þáttaröðina Neverwhere. Að vísu hafði ég þegar lesið bókina (hún er eftir Neil Gaiman og er alveg þess virði að vera lesin af vænu fólki), en langaði þó til að sjá hvernig þættirnir voru. Það má þó taka það fram að þættirnir komu á undan bókinni - eins og Gaiman segir í formála, þá gerði hann framleiðendur og leikstjóra óða með því að segja „Allt í lagi, ég hef þetta bara í bókinni“ í hvert sinn sem þeir sögðu honum að einhver sena sem hann hafði skrifað kæmist ekki í þættina. Auðvitað eru persónurnar ekki alveg eins og maður hafði hugsað sér - ég hafði t.d. séð markgreifan af Carabas sem hvítan mann, en á hinn bóginn hafði ég líka séð aðalkarlpersónuna í Anansi Boys fyrir mér sem hvítan mann uns ég var hálfnaður með bókina þegar ég áttaði mig á því að að sjálfsögðu var hann svartur, og ættaður frá Karíbahafi að auki! - og mér þótti afskaplega notalegt að sjá Tamsin Greig (úr Black Books) í smáhlutverki sem alvöru goth-gella. Ég bar auðvitað kennsl á hana um leið og hún birtist á skjánum fyrst. Merkilega sjarmerandi kona, svona miðað við að það er hver einstakur líkamshluti er ekkert sérstaklega spennandi, en heildarmyndin kemur afskaplega vel út. Eða kannske er ég bara svona veikur fyrir keltneskum konum).

Ég vil auðvitað ekki skemma söguna fyrir neinum - því ég er auðvitað til í að lána þennan disk hverjum sem er, og ef enginn biður mig um hann á næstunni, þá mun ég einfaldlega troða honum upp á næsta vesalings fórnarlamb, þannig að ef einhver býður sig fram, þá er hann í raun að gera skelfilegt góðverk - en hún býður m.a. upp á anski ævintýralega mynd af lífi hinna heimilislausu í London. Raunar kemur fram í viðtali við Gaiman að hann var ansi tregur til að taka þátt í þessu með kómikeranum Lenny Henry því hann óttaðist að unglingar í Liverpool eða Birmingham fengju full-skekkta mynd af lífi útigangsmanna í London, og myndu flykkjast þangað í hrönnum.

Ég efast auðvitað um að það hafi gerst. Hins vegar eru þetta fyrirtaks þættir. Gerðir fyrir frekar lítinn pening, og tæknibrellurnar, þá sjaldan þær birtast, eru fjandi lélegar - en við öðru er varla að búast af ellefu ára gömlum ára þáttum. Leikurinn er kannske ekki alltaf til fyrirmyndar - en kannske er það bara klippingin - en styrkur sögunnar dregur allt annað áfram. Synd og skömm hafi þetta ekki verið sýnt í íslensku sjónvarpi - þótt það sé auðvitað skiljanlegt. Ég meina, hvernig þýðir maður orðaleikinn „Knightsbridge - Night's Bridge“?

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home